Ferill 469. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


148. löggjafarþing 2017–2018.
Prentað upp.

Þingskjal 1088  —  469. mál.
Undirskrift.

2. umræða.


Nefndarálit með breytingartillögu


um frumvarp til laga um breytingu á lögum um húsnæðismál, nr. 44/1998, með síðari breytingum (stefnumótun á sviði húsnæðismála, hlutverk Íbúðalánasjóðs).

Frá velferðarnefnd.


    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Rún Knútsdóttur frá velferðarráðuneytinu, Önnu Guðmundu Ingvarsdóttur, Ólaf Heiðar Helgason og Sigrúnu Ástu Magnúsdóttur frá Íbúðalánasjóði, Elínu Ölmu Arthursdóttur og Ingvar J. Rögnvaldsson frá ríkisskattstjóra, Hrafnhildi Arnkelsdóttur og Ólaf Hjálmarsson frá Hagstofu Íslands, Þórð Sveinsson frá Persónuvernd og Jón Þór Sturluson, Andrés Þorleifsson og Maríu Rúriksdóttur frá Fjármálaeftirlitinu. Umsagnir bárust frá Alþýðusambandi Íslands, Bandalagi starfsmanna ríkis og bæja, Fjármálaeftirlitinu, Hagstofu Íslands, Íbúðalánasjóði, ríkisskattstjóra, Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Samtökum atvinnulífsins, Seðlabanka Íslands, Tryggingastofnun ríkisins, Viðskiptaráði Íslands og Þjóðskrá Íslands.
    Markmið frumvarpsins er að finna hlutverki stjórnvalda í þjónustu í almannaþágu á húsnæðismarkaði traustan farveg til framtíðar. M.a. er með frumvarpinu verið að fela Íbúðalánasjóði verkefni við úthlutun stofnframlaga til almennra íbúða. Þá eru í frumvarpinu ákvæði um stefnumótun, greiningu og áætlanagerð í húsnæðismálum.
    Nefndinni bárust tólf umsagnir um málið. Ýmsir umsagnaraðilar gagnrýna einstaka þætti frumvarpsins og ber þar helst að nefna athugasemdir um 2. mgr. 4. gr. frumvarpsins um að Íbúðalánasjóði sé heimilt að krefja stjórnvöld og stofnanir um gögn og upplýsingar um húsnæðismarkaðinn og að þeim stjórnvöldum og stofnunum sé skylt að veita Íbúðalánasjóði upplýsingarnar á því formi sem óskað er eftir og innan tímamarka sem sjóðurinn ákveður. Umsagnaraðilar benda á að þessi heimild sjóðsins til að krefjast upplýsinga frá m.a. Hagstofu Íslands, Þjóðskrá Íslands, ríkisskattstjóra og Tryggingastofnun ríkisins sé of víðtæk. Ekkert tillit sé tekið til þagnarskyldu stjórnvalda og stofnana, líkt og t.d. er kveðið á um í 117. gr. laga um tekjuskatt, nr. 90/2003. Nefndin tekur undir framangreindar ábendingar umsagnaraðila um að heimildir Íbúðalánasjóðs til gagnaöflunar geti ekki takmarkað þagnarskyldu stjórnvalda og stofnana. Leggur nefndin til breytingu á 4. gr. sem gengur ekki eins langt og ákvæðið nú.
    Nefndin ræddi sérstaklega a-lið 11. gr. (14. gr. a) sem kveður á um að ráðherra skuli boða til húsnæðisþings árlega. Í 3. mgr. er kveðið á um að húsnæðisþing sé öllum opið og fylgir upptalning á þeim sem sérstaklega skal boða til þingsins. Nefndin er sammála því að húsnæðisþing skuli vera öllum opið en leggur áherslu á að sem flestir fái tækifæri til að sækja slíkt þing. Í ljósi þeirrar uppbyggingar sem er á leigumarkaði í gegnum stofnframlög leggur nefndin áherslu á að sá hópur sé sérstaklega talinn upp í ákvæðinu og gerir breytingartillögu þar um.
    Í umsögn sinni og fyrir nefndinni benti Fjármálaeftirlitið á að eftirlitshlutverk þess gagnvart Íbúðalánasjóði væri ekki nægilega vel skilgreint í lögunum og að í ljósi breytts hlutverks sjóðsins væri nauðsynlegt að skýra nánar það hlutverk Fjármálaeftirlitsins. Bendir Fjármálaeftirlitið á að takmarkað gagn sé af lagaákvæðum sem gera ráð fyrir eftirliti með fjárhagsstöðu og fylgni við lög ef engar valdheimildir fylgja. Nefndin tekur undir athugasemdir Fjármálaeftirlitsins og beinir því til ráðuneytisins að það taki löggjöfina til endurskoðunar með athugasemdir Fjármálaeftirlitsins til hliðsjónar.
    Í ljósi framangreinds leggur nefndin til að frumvarpið verði samþykkt með eftirfarandi

BREYTINGU:


     1.      Við 4. gr.
                  a.      Í stað orðanna „söfnun, úrvinnslu“ í 3. tölul. 1. efnismgr. komi: greiningu.
                  b.      2. efnismgr. orðist svo:
                     Íbúðalánasjóði er heimilt að afla og vinna með upplýsingar sem nauðsynlegar eru vegna verkefna skv. 1.–7. tölul. 1. mgr. Íbúðalánasjóður skal jafnan upplýsa í hvaða tilgangi gagna er aflað, hvernig úrvinnslu verður háttað, gögn varðveitt og niðurstöður birtar.
     2.      Á eftir orðunum „fulltrúa sveitarfélaga“ í 3. mgr. a-liðar 11. gr. (14. gr. a) komi: leigumarkaðarins.

    Anna Kolbrún Árnadóttir var fjarverandi við afgreiðslu málsins en ritar undir álit þetta samkvæmt heimild í 4. mgr. 18. gr. starfsreglna fyrir fastanefndir Alþingis. Vilhjálmur Árnason var fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Alþingi, 4. júní 2018.

Halldóra Mogensen,
form.
Halla Signý Kristjánsdóttir, frsm. Anna Kolbrún Árnadóttir.
Ásmundur Friðriksson. Guðjón S. Brjánsson. Guðmundur Ingi Kristinsson.
Kolbeinn Óttarsson Proppé.      Ólafur Þór Gunnarsson.